Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að tala um 6. gr. sem fjallar um niðurfellingu á þjónustu. Erfiðleikarnir við að ræða þessa grein, þar sem við erum að bera okkur saman við önnur lönd, af því að eitt af markmiðum frumvarpsins á að vera að samræma framkvæmdina hér á Íslandi og lögin við lög samanburðarlanda, eru að þegar við spyrjum: Er þetta einhvers staðar annars staðar svona? þá bara: Nei, það er hvergi í rauninni sem réttindin eru alveg felld niður en að sama skapi erum við ekki með lokuð búsetuúrræði eða brottrekstrarsvæði eða eitthvað svoleiðis sem gæti verið einhvers konar vægari útgáfa af þjónustuskerðingu. Maður er að koma að þessari grein á dálítið furðulegan hátt, alla vega í samanburði við annað. Þetta er ekki eitthvað sem er verið að gera til að nálgast það eins og önnur lönd gera það. Það er ekki farið alla þá leið að gera fangabúðirnar, lokaða búsetuúrræðið eða hvað sem menn vilja kalla þetta á nýmállýsku, pc-útgáfu orðsins.

Vandinn sem við erum að sjá hér eru líka undanþágurnar frá því að réttindi falli niður. Rétturinn til þjónustu á að falla niður en svo gætirðu út af einhverjum málefnalegum ástæðum verið í einhvers konar undanþágu frá því að þjónustan falli niður. Vandinn við það er dálítið að það er fjallað um hvort viðkomandi útlendingur hafi sýnt samstarfsvilja. Í öðrum greinum er líka aðeins fjallað um hvað það er að sýna samstarfsvilja. Það er búið að lista það upp. Það er einhvern veginn of óljóst orðað núna en það er búið að lista upp ákveðin atriði sem er hægt að horfa til og það eru mjög ströng skilyrði. Á sama hátt og í 4. gr., þar sem segir að það skuli skila greinargerð vegna kæru innan 14 daga, þá eru skilyrðin sett rosalega ströng. Þannig að ef viðkomandi kemst ekki í eitt læknaviðtal eða skilar inn fölskum skilríkjum — sem er búið að fara hérna yfir að er alveg réttur þeirra sem eru á flótta, í alvöru, bara út af aðstæðum er kannski ekkert annað í boði — þá væri hann þannig á lagatæknilega hátt búinn að fyrirgera rétti sínum til þess að flokkast með samstarfsvilja. Þó að kannski sé ekki látið reyna á það í einhverjum tilvikum þá er það gert þegar þarf að láta reyna á það, þ.e. ef stjórnvöldum finnst þau þurfa að segja „þú ert ekki að sýna samstarfsvilja“ þá geta þau bara bent á „hérna sýndir þú ekki samstarfsvilja samkvæmt laganna hljóðan“.

Þetta er svipað og með neysluskammtana sem við erum að reyna að vesenast í hérna líka. Lögreglunni finnst bara svo þægilegt að geta sagt: Þú ert með eitthvað, gramm á þér af einhverju, og þá bara ferð þú í alla meðferðina og inn í klefa og í, hvað það nú er, leitarheimild og allt sem er notað. Af því að þetta er tangarhald á fólk sem stjórnvöld vilja á einhvern hátt ganga á. Þá eru skilyrðin sett rosalega þröng og bara hægt að vísa í: En það stendur í lögunum að ég megi þetta.

Það er þar sem mannréttindaákvæðin þurfa að fara í gang og vara við því að stjórnvöld gangi á rétt fólks. Að ganga á fólk eins og er verið að gera hérna með réttindaskerðingu er eitthvað sem þarf að gera á mjög málefnalegan og gagnsæjan hátt en það er ekki nægilega vel skýrt þarna. Ég þarf bara að fara yfir það seinna en læt þetta duga í bili.