Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég komst inn í tölvuna þannig að ég get aðeins farið yfir umsagnirnar um 6. gr. þar sem embætti landlæknis, Rauði krossinn á Íslandi, Amnesty international, Læknafélag Íslands, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og prestar innflytjenda og flóttafólks gera öll nokkuð alvarlegar athugasemdir.

Embætti landlæknis segir einfaldlega óásættanlegt að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd rétti til heilbrigðisþjónustu 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar.

„Það að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi en í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 segir m.a. í 12. gr. um „... rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.“ Fyrir utan að það er ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu getur það boðið heim hættu fyrir aðra ef t.d. einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn.“

Þetta segir sig sjálft. Það þarf ekkert að bæta við þessa umsögn. Hún er frekar skýr hvað það varðar. Maður veltir fyrir sér hver kemur til með að meta það hvort viðkomandi eigi að missa heilbrigðisþjónustu eða ekki, hvort viðkomandi sé nægilega alvarlega veikur eða hvernig það lítur út. Rauði krossinn á Íslandi nefnir að með þjónustuskerðingu 30 dögum eftir birtingu ákvörðunar sé fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verði heimilislaus án framfærslu og njóti ekki grunnheilbrigðisþjónustu. Undantekningar eru vegna einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu en líkt og Rauði krossinn á Íslandi hefur bent á vanrækir Útlendingastofnun iðulega að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort einstaklingar falli þar undir og túlkar það mjög þröngt. Þá endurmetur kærunefnd útlendingamála ekki það mat Útlendingastofnunar. Oftast fer þetta mat ekki fram með aðkomu þar til bærra sérfræðinga. Einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en hafa ekki fengið viðurkenningu á því frá Útlendingastofnun búa við færri tækifæri til að yfirgefa landið innan þess knappa tímafrests sem ætlað er að gefa, 30 daga. Því er hætt við að þetta muni koma verst niður á þeim. Eins er gert ráð fyrir því í 8. gr. frumvarpsins að synja megi um efnismeðferð ef umsækjandi hefur slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Ekki er skilyrði að viðkomandi eigi rétt nú þegar til dvalar í viðkomandi ríki. Það er því ljóst að flutningur til slíks ríkis geti verið erfiðleikum bundinn eða jafnvel óframkvæmanlegur og geti því dregist mjög. — Já, þetta er komið í 8. gr. frumvarpsins allt í einu. Það er afritunarvilla. Best að setja þetta á réttan stað svo að maður rugli nú ekki greinunum saman.

Þjónustuskerðingin er augljóslega mjög viðkvæmt málefni og augljóslega verða afleiðingarnar af henni mismunandi fyrir mismunandi fólk. Kannski hefur þetta þau áhrif fyrir einhverja að þau verði bara að fara eða að þetta dragi einhvern veginn úr tælingarmætti íslenskra laga þannig að fólk komi ekki hingað yfirleitt ef það sér fram á þetta. Undanþágurnar eru líka svo margar. Þannig að þegar maður spyr um hvaða hópastærðir við séum að tala um sem þetta beinist gegn, ekki þá sem falla undir undanþágurnar, þá er ekki hægt að svara því. Við vitum því ekki mögulega stærð skilvirkninnar í þessu. Svo hafa líka mjög margir af þeim sem hafa sótt um fengið vernd þannig að það er ekki eins og þetta beinist að þeim. Það getur ekki verið þannig. Þetta er fólk sem á rétt á alþjóðlegri vernd. Þannig að þetta er einungis gagnvart þeim sem eru þar fyrir utan og hafa ekki fengið vernd miðað við núverandi aðstæður, einhver hópur af þeim fellur ekki undir undanþágurnar sem þetta á við. Við höfum ekki hugmynd um hvaða skilvirkni þetta er að fara að búa til eða möguleg flækjustig við kærur hvað þetta varðar, að það sé ekki tekið neitt tillit til undanþága eða að það sé ósanngjörn málsmeðferð hvað þetta ákvæði varðar. En alla vega, (Forseti hringir.) ég tala meira um það seinna.