Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:15]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta frumvarp til laga, lið fyrir lið eða grein fyrir grein. Ég er komin í 8. gr. Það er þá c-liður 8. gr. sem er hér verið að skoða og gagnrýna. Ég ætla að lesa hér upp úr umsögn Rauða krossins á Íslandi, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn leggur til að ákvæði 2. mgr. 36. gr., sem fjallar um það hvenær umsækjendur öðlast rétt til efnismeðferðar vegna þess að afgreiðsla umsóknar þeirra hefur dregist, standi óbreytt en að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laganna verði breytt til samræmis við 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. gildandi laga þannig að ætíð verði miðað við heildardvalartíma hér á landi en ekki ákvarðanir Útlendingastofnunar og/eða úrskurði kærunefndar útlendingamála.“

Forseti. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að þessir skólakrakkar sem ég talaði um í fyrri ræðu minni, sem mótmæltu endursendingu skólasystur sinnar, og fleiri þannig mál hafa áhrif og snerta hjörtun okkar. Þá einhvern veginn kannski átta stjórnvöld sig meira á því að hér er fólk sem hefur myndað tengingar og það er bara mjög gott að það hafi verið hlustað á það í einhverjum tilvikum. Það er svo mikil afturför ef við ætlum einhvern veginn að reyna að fara í sama horf vegna þess að það var ástæða fyrir því að þessu var breytt. Það er ástæða fyrir því að það var hlustað á börnin í Hagaskóla og aðra einstaklinga sem hafa tengst fólki á flótta. En það er afturför.

Ég ætla núna að tala um nánari skilgreiningar á því hvenær umsækjandi telst hafa tafið mál sitt, í c-lið 8. gr. frumvarpsins, og ætla ég að vitna í umsögn Rauða krossins á Íslandi, með leyfi forseta:

„C-liður 8. gr. frumvarpsins kveður jafnframt á um breytingar á síðari málsl. 2. mgr. 36. gr. útl. sem fela í sér nánari skýringar á því hvenær tafir á afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd er á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.“

Ég ætla að láta hér staðar numið og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá þar sem ég hef ekki lokið máli mínu.