153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Síðast þegar ég mætti í ræðustól var ég dálítið að fjalla um aðstæður flóttafólks í Grikklandi og þann ótrúlega skort á samstöðu með Grikkjum, ofan á ómannúðina sem sýnd er flóttafólkinu sjálfu, sem birtist í því að íslensk stjórnvöld séu reglulega að endursenda fólk í það þjónustuleysi eða aðstöðuleysi sem ríkir í verndarkerfinu í Grikklandi og sem grísk stjórnvöld ráða svo augljóslega varla við að halda úti, eða ráða ekki við að reka þannig að þau geti boðið upp á mannsæmandi þjónustu.

En mig langar að líta núna aðeins lengra, út fyrir Schengen-svæðið, út fyrir Evrópu, vegna þess að þetta er vandi sem síðan veltur áfram. Frá því að fjöldi flóttafólks snarjókst fyrir nokkrum árum þá hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu. Bæði hefur verið komið upp t.d. mikið af móttökumiðstöðvum á grísku eyjunum sem liggja þétt upp við Tyrkland þannig að sjóferðin frá Tyrklandi er mjög stutt og fólk á flótta sækir stundum í vernd á því svæði þar sem mannréttindi eru hvað mestum í hávegum höfð og þar sem friður ríkir. Á hvort tveggja geta þau nokkurn veginn stólað að sé meginreglan innan Evrópusambandsins. Þannig að það er heill hellingur af fólki sem leggur í þetta ferðalag yfir hafið á milli Tyrklands og Grikklands. Ekki öll hafa það af en mörg ná landi á grísku eyjunum og eru þar sett í flóttamannabúðir þar sem aðstæður eru enn verri en í verndarkerfinu þegar fólk er loksins búið að fá alþjóðlega vernd samþykkta.

Það sem hins vegar gerðist fyrir nokkrum árum var að það fór að bera meira og meira á því að grísk stjórnvöld færu að stunda það sem á ensku heitir, með leyfi forseta, „pushbacks“ og er eiginlega, alveg eins og nafnið gefur til kynna, að ýta til baka. Þá fór landamæravarslan eða strandgæslan, bara þau yfirvöld sem voru á sveimi nálægt landamærum Grikklands, hvort sem það er á hafi eða landi, í staðinn fyrir að bjarga fólki í háska á sjó t.d., að stjaka því aftur yfir til Tyrklands þannig að það gæti haldist þeim megin við landamærin. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt bæði innan Evrópusambandsins og á alþjóðavísu af því að þetta samrýmist ekki sáttmálum Evrópusambandsins eða alþjóðalögum. Ég var t.d. að lesa frétt frá, með leyfi forseta, „European Council on Refugees and Exiles“ eða Evrópuráði flóttafólks og fólks í útlegð, sem áætlar að bara fyrstu viku þessa árs hafði landhelgisgæsla Grikklands stoppað 32 báta sem í voru 1.108 manns á flótta og komið því fólki aftur í austurátt yfir til Tyrklands.

Með því að Ísland velti vandamálum yfir á Grikkland (Forseti hringir.) þá leiðir náttúrlega af sjálfu sér að Grikkland veltir sínum vanda eitthvert annað og þar fram eftir götunum.