Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég var að fara yfir c-lið 8. gr. frumvarpsins, sem er kannski sá liður frumvarpsins sem mér finnst einna ósvífnastur í því að sýna fólki að það sé raunverulega ekki velkomið. Upptalningin í þessu ákvæði er þess eðlis að það leiðir í rauninni til þess að Útlendingastofnun hefur algerlega í hendi sér að túlka nánast hvað sem er sem tafir á málsmeðferð á ábyrgð umsækjenda sem myndi gera það að verkum að viðkomandi ætti ekki rétt á endurupptöku og efnismeðferð að 12 mánuðum liðnum.

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan þá þótti mér það koma skýrt fram — mér þykir það reyndar skýrt af þessari greinargerð, með þessu lagaákvæði í þessu frumvarpi og mér þótti það vera enn skýrara af umræðum um þetta og á svörum við spurningum okkar í allsherjar- og menntamálanefnd til frumvarpshöfunda ráðuneytisins — að ástæðan fyrir því að þau leggja þetta til sé sú að þau eru ósátt við það að fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki fái yfir höfuð efnismeðferð hér á landi.

Þetta ákvæði snýst ekki um það. Þetta ákvæði snýst um að jafnvel þó að stjórnvöld séu búin að komast að þeirri niðurstöðu að þú eigir ekki fá efnismeðferð hér á landi af því að þú ert kominn með vernd í Grikklandi, þá áttu eftir ákveðinn tíma rétt á henni. En það er alveg ljóst að frumvarpshöfundum finnst það óeðlilegt. Og meira að segja kom sú setning fram á fundum allsherjar- og menntamálanefndar að einstaklingar sem hefðu fengið vernd í öðru ríki ættu ekki erindi í verndarkerfið á Íslandi. Það má vel vera að einhver sé sammála því og það má vel vera að meiri hlutinn hér á þingi sé sammála því, en þessi framsetning á þeirri skoðun er mjög röng að mínu mati. Hún er ósanngjörn gagnvart umsækjendum, hún er flókin, hún mun íþyngja kerfinu mun meira en sú breyting sem var lögð til hér áður, sem ég er augljóslega og sannarlega á móti, en var heiðarlegri en þetta, sem gekk út á það að afnema heimild stjórnvalda á Íslandi til að taka til efnismeðferðar umsókn fólks sem hafði fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki.

Það sem gleymist hér er það að þegar þetta frumvarp var unnið — það var unnið í þverpólitískri sátt, það var tekinn góður tími í það, það sem við erum alltaf að tala um að þurfi að gerast. En lögin eins og þau eru í dag, lög nr. 80/2016 voru unnin í þverpólitískri sátt í kjölfar mikillar vinnu, skýrslna sem voru unnar á lagalegri stöðu flóttafólks og afstöðu allra aðila. Þarna komu allir aðilar að borðinu og voru sammála um að langur málsmeðferðartími væri eitthvað sem þyrfti að bregðast við og það þyrftu að vera afleiðingar þegar málsmeðferð drægist fram úr hófi. Það er tilgangurinn með þessu ákvæði. Hann er ekki sá að hafa eitthvað með það að gera hvort við höfum skoðun á því að málið verði tekið til efnismeðferðar hér eða ekki einhvern tímann. Það er þannig í öllum ríkjum Evrópu að það kemur fyrir að mál eru tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir að viðkomandi hafi fengið vernd í öðru ríki þó að það sé gert á öðrum forsendum. Það er gert á forsendum annarra lagaákvæða, jafnvel á grundvelli mjög dramatískra lagaákvæða um að það megi ekki senda fólk til baka þangað sem líf þess eða frelsi er í hættu. Því hefur aldrei verið beitt hér gagnvart t.d. Grikklandi.

Það sem er áhugavert við þetta allt saman er að til þess að t.d. hætta að senda einstaklinga til Grikklands, sem við ættum að gera að mínu mati og myndi auka skilvirkni hér mjög til muna, það myndi útrýma þessum málum — það þyrfti ekkert annað í framkvæmd. Það þarf ekkert annað en að ráðherra ákveði það nákvæmlega eins og ráðherra ákvað árið 2010 að hætta að senda fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Núna er ég búin að rugla alla hlustendur í ríminu vegna þess að fólk gerir engan greinarmun á Dyflinnarreglugerðinni og fólki sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Það er þó munur þarna á. — Ég er hins vegar fallin á tíma þannig að ég óska eftir því, forseti, að fá að fara aftur á mælendaskrá.