Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:53]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir umsögn Rauða krossins. Ég var komin að 8. gr. frumvarpsins og ætla að halda áfram þar sem frá var horfið og lesa upp úr umsögninni, með leyfi forseta:

„Þá gengur umrædd breyting þvert á ákvæði 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans, en þar segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima. Ákvæðið beinist einkum gegn því að börn séu sett í þá aðstöðu að vera látin líða fyrir athafnir foreldra sinna eða ættingja, sem þau eiga engan þátt í né bera ábyrgð á, en eru samt látin gjalda fyrir vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu sinnar. Þá er tilefni til að taka fram að þau rúmlega sjö ár sem Rauði krossinn sinnti talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa talsmenn félagsins ekki orðið þess áskynja að foreldrar hafi „þvingað fram efnislega málsmeðferð“ með því að viljandi tefja mál sín, líkt og fram kemur í frumvarpinu, og er umrædd staðhæfing því í engu samræmi við reynslu félagsins.

Í frumvarpinu er að auki lagt til að umsækjandi um alþjóðlega vernd missi rétt til efnislegrar meðferðar ef maki, sambúðarmaki eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans hönd á þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpsgreinina á þetta t.d. við um foreldra, umsjónarmenn og talsmenn umsækjenda.

Rauði krossinn leggst alfarið gegn umræddu ákvæði enda getur umsækjandi aldrei borið hallann af athöfnum eða athafnaleysi þriðja aðila nema sýnt sé fram á að þær megi rekja beint til umsækjanda. Þá er ekki skýrt með neinum hætti til hvaða atriða er heimilt að líta þegar meta skal hvort aðrir aðilar en umsækjandi sjálfur teljast hafa tafið mál.

Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar ber það stjórnvald sem bært er til að taka stjórnvaldsákvörðun í máli, ábyrgð á því að mál hafi verið undirbúið forsvaranlega og með það farið í samræmi við ákvæði laga og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Af málshraðareglunni leiðir að stjórnvaldið verður að ganga á eftir því með ítrekunum og öðrum virkum úrræðum að önnur stjórnvöld svo og málsaðilar skili inn gögnum og umsögnum í samræmi við lög. Það er því ljóst að viðkomandi stjórnvald ber að meginstefnu ábyrgð á málshraða. Allar undantekningar frá þeirri reglu ber að túlka þröngt. Þá ber að gæta þess að ekki séu settar ósanngjarnar kröfur á málsaðila eða umboðsmenn þeirra í krafti málshraða. Þannig getur það ekki talist sanngjarnt að umsækjanda um alþjóðlega vernd eða umboðsmanni hans sé veittur mjög knappur frestur til öflunar gagna eða ritunar umsagna …“