Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar að halda mig aðeins lengur á syðri landamærum Evrópu og ræða stöðu fólksins sem er að reyna að koma sér yfir Miðjarðarhafið, yfir landamæri, yfir Eyjahafið, frá Tyrklandi, Líbíu, hvaða landi sem er inn fyrir múra Evrópu. Frá því að fjöldi flóttamanna snarjókst árið 2015 hafa þeir múrar verið gerðir mun rammgerðari. Áðan nefndi ég dæmi um aðgerðir grískra stjórnvalda gegn fólki sem reynir að komast þangað frá Tyrklandi. Núna langar mig að nefna þær aðgerðir sem Evrópusambandið, og sérstaklega Ítalía og Malta, standa fyrir til að nappa fólk á flótta frá Líbíu, sem sagt fólk sem er að flýja önnur lönd, en notar Líbíu sem stökkbretti yfir Miðjarðarhafið af því Líbía liggur svo vel við Evrópu, það er stutt þaðan til Sikileyjar. Sikiley og Malta eru rétt hjá Líbíu, svo að segja Árið 2015 byrjar sem sagt þessi nýja bylgja af fólki á flótta að rísa og er Sýrlandsstríðið náttúrlega kannski einn stærsti áhrifavaldurinn en ýmsar ástæður verða til þess að fólk þarf að flýja og leitar sumt til Evrópu. Ítalía lendir fljótt í sama vanda og Grikkir að vera með óásættanlegar aðstæður í sínu móttöku- og verndarkerfi, aðeins aðrar ástæður en hjá Grikkjum en ekkert ósvipuð staða.

Það sem ítölsk stjórnvöld hafa gert er að gera sérstakt samkomulag við kollega sína í Líbíu. Árið 2017 skrifaði Ítalía undir samkomulag við Líbíu sem fól m.a. í sér að ítölsk stjórnvöld myndu bjóða fram tækjabúnað, fjármuni og ýmislegt annað sem þarf til að liðsinna sérstaklega landhelgisgæslu Líbíu við að fylgjast með fólki sem var að reyna að sigla yfir hafið frá Líbíu í átt að Ítalíu. Þetta var gjarnan markaðssett undir því yfirskini að vera í þágu flóttafólksins, að þarna væri verið að bjarga því frá drukknun, sem er vissulega stórt vandamál þar. Tugir þúsunda hafa farist við það að reyna að komast yfir þennan bút af Miðjarðarhafinu.

En það sem hefur líka komið út úr þessu er að flugvélar og drónar á vegum ítalskra og maltverskra stjórnvalda og á vegum Frontex, landamæraþjónustu Evrópusambandsins, hafa vaktað þetta hafsvæði og komið þeim upplýsingum til Líbíu og þannig hjálpað strandgæslunni þar að finna báta sem hún hefði annars ekki haft getu til að finna. Þegar þessir bátar eru fundnir er fólkinu komið aftur til baka yfir til Líbíu og þar með kannski varpar einhver embættismaðurinn á Ítalíu öndinni léttar vegna þess að hann þarf ekki að eiga við einn bátsfarm af flóttafólki í viðbót, en fólksins sem fer aftur til Líbíu bíður ekki sérstaklega góð vist. Það eru gríðarleg vandamál, stjarnfræðileg í samanburði við það sem við höfum talað um í tengslum við Ítalíu og Grikkland. (Forseti hringir.) En við komum kannski að því síðar.