Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum að fjalla um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem breytir 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016. Svo vill til að þessi 36. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, er það ákvæði sem sú er hér stendur hefur stúderað einna mest og hef ég raunar skrifað heila lögfræðilega fræðigrein um þetta ákvæði. Mér þykir af því tilefni sem þetta frumvarp gefur ástæða til þess að rifja aðeins upp rökin að baki þessu ákvæði þar sem verið er að reyna að hola það að innan í stað þess einfaldlega afnema það, sem ég veit að frumvarpshöfundum væri skapi næst en það hefur ekki verið fallist á það, þá ætla ég aðeins að lesa úr greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 80/2016. Með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. er áréttað að hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða að sérstakar ástæður mæli með því skuli taka mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til.“ — Við skulum bara hafa Grikkland í huga þegar við erum að fara yfir þetta.

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum ástæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna heilsufars eða þungunar eða átt erfitt uppdráttar í viðtökulandi vegna mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns. Til sérstakra aðstæðna geta einnig talist þau tilvik þegar afgreiðsla á máli sem fellur undir c-lið 1. mgr. hefur dregist lengur en 12 mánuði og ástæður þess eru ekki á ábyrgð umsækjanda. Í öllum málum er varða endursendingar útlendinga til þriðja lands skal fara fram ítarlegt mat á aðstæðum viðkomandi útlendings og aðstæðum og ástandi í móttökuríki. Er hér miðað við að stjórnvöldum sé eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Er ákvæðinu einnig ætlað að taka til þess ef varhugavert þykir að beita ákvæðum 2. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og senda hælisleitendur til ríkja í Evrópu þar sem ástæða þykir að ætla að meðferð eða aðbúnaður hælisleitenda sé í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar.“

— Ég ætla rétt aðeins að staldra við og bara þýða þetta: 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felur í sér bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð.

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Enn yrði byggt á því að um einstaklingsbundna ákvörðun væri að ræða þannig að metið væri hvort varhugavert væri að senda tiltekinn hælisleitanda til annars ríkis samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Það færi þá eftir almennum málsmeðferðarreglum laganna hver meðferð hælisumsóknarinnar yrði hér á landi eftir að ákvörðun yrði tekin um að taka hana til efnismeðferðar.“

Þetta er grein sem reyndar hefur verið í lögum alveg frá því að við hófum Dyflinnarsamstarfið á 10. áratugnum, sem var fyrirrennari Dyflinnarreglugerðarinnar eins og hún er í dag. Það var upphaflega samningur milli ríkjanna. Í dag er það Evrópureglugerð sem Ísland á aðild að í gegnum Schengen-samstarfið. Það hefur frá upphafi verið heimild til þess að taka til efnismeðferðar, eða raunar ekki heimild, það er í rauninni skylda samkvæmt lögunum, að taka til efnismeðferðar umsóknir jafnvel þó að eitthvert annað ríki Evrópu beri ábyrgð á meðferð málsins á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sem kveður á um það hvaða ríki Evrópu beri ábyrgð á henni ef sérstakar ástæður mæla með því eða ef viðkomandi hefur tengsl við landið.

Það sem gerðist árið 2016 var að bætt var inn í lögin að þessi undantekning ætti líka við um mál þar sem fólki hefur verið veitt vernd í öðru ríki. Ég vona að ég sé ekki týna hlustendum núna, en Dyflinnarreglugerðin gildir eingöngu um einstaklinga sem hafa ekki fengið svar við umsókn sinni eða hafa fengið synjun. Þegar fólk hefur fengið alþjóðlega vernd í einhverju Evrópuríki þá gildir Dyflinnarreglugerðin ekki lengur, þá er fólki í raun vísað frá á þeim grundvelli einum að það sé með heimild til komu og dvalar (Forseti hringir.) í því ríki. Og sem fyrr segir, til að einfalda þetta í huga okkar þá skulum við alltaf hafa bara Grikkland í huga þegar við erum að ræða þetta. — Ég óska eftir því við forseta að fara aftur á mælendaskrá.