Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Aðeins áfram varðandi ástandið á milli Líbíu og Ítalíu. Þetta er hafsvæði sem er stundum í fréttum hér á landi vegna þess að Landhelgisgæsla Íslands hefur verið dálítið á þessu svæði, hefur komið að sameiginlegum verkefnum og hefur leigt bæði loftför og skip til landvarða strandgæslustofnunar Evrópu, sem er einnig þekkt sem Frontex. Stóra verkefnið eins og þetta er alltaf kynnt er leit og björgun, vegna þess að þetta er auðvitað mjög hættulegt hafsvæði og göfugt verkefni að bjarga flóttafólki sem kemst í háska í leit að öryggi í Evrópu. En þessar aðgerðir snúast ekki bara um það heldur líka um að aðstoða við áætlanir Evrópusambandsríkja um hertari aðgerðir gegn fólksmyglurum og að auka samstarf, til að mynda við líbísk stjórnvöld þangað sem flóttafólk er síðan sent í skelfilegar aðstæður.

Ég nefndi hér hvernig upplýsingum væru veittar til líbískra yfirvalda, þannig að þau geti fundið báta fulla af flóttafólki sem eru síðan dregnir aftur til Líbíu en þar fer fólk í einfaldlega skelfilegar aðstæður. Það er hægt að fá ágætt yfirlit yfir það, t.d. í skýrslu sem gefin var út af svokölluðum — hvað köllum við það? Þetta var hópur á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem fór til Líbíu til að safna upplýsingum um ástandið þar og skilaði skýrslu til Mannréttindaráðsins á fundi þess í júní á síðasta ári og þar eru niðurstöðurnar varðandi fólk á flótta. Reyndar var þetta skoðað aðeins víðar, þ.e. fólk á flótta og bara farandfólk almennt — ætli það sé ekki hugtakið sem við myndum nota. Þar kemur fram að það eru sterkar vísbendingar, eins og það heitir á mjög dempuðu skýrslumáli, um að þær aðstæður sem fólk þarf að upplifa í flóttamannabúðum í Líbíu séu þess eðlis að ofbeldi, pyntingar og frelsissvipting séu daglegt brauð og jafnvel þrælahald, nauðganir og dauði. Skýrsluhöfundar benda á þessu tengt að fátt hafi verið gert af hálfu líbískra stjórnvalda eða alþjóðlegra samstarfsaðila þeirra, þar eru Ítalíu og Malta sérstaklega nefnd, til að vinda ofan af þessum aðstæðum.

Þannig að hér erum við aftur komin með dæmi þar sem lönd Evrópu, og þar eru Malta og Ítalía í broddi fylkingar í þessu dæmi, urðu dálítið stressuð af því að það er komin að þeirra mati of stór hópur flóttafólks á einn stað í Evrópu og frekar en að deila þeim byrðum um álfuna og tryggja mannréttindi þessa hóps er farið í alls konar æfingar til að stjaka því til baka yfir Miðjarðarhafið og koma því í fullkomlega ólíðandi og ómannúðlegar aðstæður, í þessi tilviki í Líbíu. (Forseti hringir.) Hér ber Ísland ábyrgð, m.a. vegna þess að við erum eitt af þeim ríkjum sem eru dugleg að stjaka fólki héðan yfir í kerfið á Ítalíu (Forseti hringir.) sem aftur býr til þrýstinginn á að stjórnvöld þar heimti þessar hörðu aðgerðir.