Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn um ástandið undan ströndum Líbíu og það hvernig Evrópusambandið með aðkomu Íslands hefur sífellt hækkað og stækkað múrana sem fólk þarf að komast yfir ætli það að flýja frá Líbíu sjóleiðina til Evrópu. Ég nefndi áðan skýrslu sem lögð var fyrir Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í júní á síðasta ári þar sem fram kom að það væru töluverðar ástæður til að ætla að glæpir gegn mannkyni væru í gangi gagnvart fólki á flótta í Líbíu, þar á meðal morð, mannshvörf, pyndingar, þrælahald, kynferðisofbeldi, nauðgun og annað. Þetta er kerfi sem fólk er sent í eftir aðkomu evrópskra stjórnvalda. Það eru eftirlitsflugvélar á vegum Frontex sem sveima yfir hafsvæði þar sem fólk reynir að flýja frá Líbíu til Ítalíu. Frontex lætur líbísk yfirvöld vita sem senda skip eftir fólkinu og koma því til baka til Líbíu.

Evrópusambandið veit alveg af þeim mannréttindabrotum sem í gangi eru gegn flóttafólki í Líbíu, lítur einhvern veginn á þetta sem nauðsynlegan fórnarkostnað. Það er auðveldara að ýta vandanum frá sér og loka augum fyrir því hverjar aðstæður fólks eru, eins og við þekkjum í umræðunni hér þegar talað er um að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Íslandi og í einhverjar óásættanlegar aðstæður hvort sem er í Grikklandi eða í öðru landi sem ekki getur tryggt nægjanlega réttindi fólks.

En það sem mig langaði að tala um er kannski sérstaklega sá þáttur sem snýr að Ítalíu vegna þess að stjórnvöld þar, til viðbótar við þetta Frontex-samstarf, skrifuðu undir samning eða samkomulag um fjárhagslegan og tæknilegan stuðning við Líbíustjórn til að til finna fólk sem reynir að koma sér þarna yfir hafið, vegna þess að sá samningur var gerður 2017 til þriggja ára og síðan endurnýjaður aftur til þriggja ára. Svo skilst mér að það hafi verið 28. janúar sem ákveðið var að endurnýja hann en Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, heimsótti Líbíu og skrifaði þar undir, eða lýsti því yfir að Ítalía myndi koma fimm nýjum bátum til strandgæslu Líbíu og að samkomulagið yrði framlengt um þrjú ár í viðbót. Þarna leggur Evrópa lóð á vogarskálar ómannúðar og þarna væri nú ástæða til að skoða sérstaklega hver þáttur íslenskra stjórnvalda hefur verið. Við vitum náttúrlega að árum saman hefur t.d. TF-SIF verið í útleigu til Frontex frekar en að sinna öryggi á íslensku yfirráðasvæði. Margt af því sem sú flugvél hefur sinnt þarna í Miðjarðarhafi hefur vafalaust tengst öryggi og björgun en hversu mikið hefur vélin verið notuð til að koma upplýsingum til yfirvalda sem síðan hafa komið fólki í þessar aðstæður?