Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:06]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég horfi yfir þingsalinn og mér líður vel. Ég sé marga stjórnarliða hér í sal. Píratar hafa ítrekað kallað eftir viðveru ráðherra og stjórnarliða, þá sérstaklega meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, til að koma og taka þátt í þessari umræðu með okkur þannig að við getum fengið efnislega staðfestingu á því að verið sé að hlusta á þær kröfur og ábendingar sem Píratar eru að koma með hér upp í pontu. Ég geri ráð fyrir að greitt verði með lengri þingfundi og þá vona ég að meiri hlutinn láti sjá sig hér í þingsal, eða alla vega í hliðarsal, og sýni að verið sé að hlusta á okkar kröfur. Ég sé að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er mættur á staðinn. Það er gott að sjá hann. Við höfum ítrekað kallað eftir viðveru hans og líka viðveru hæstv. mennta- og barnamálaráðherra. Ég hlakka til að sjá hvernig það verður hér inni í þingsal á eftir.