153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sértryggð skuldabréf og fjármálafyrirtæki.

433. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf og lögum um fjármálafyrirtæki.

Ég ætla að fara yfir helstu atriði þessa frumvarps en með því eru lagðar til breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Ætlunin er að innleiða efni tilskipunar (ESB) 2019/2162, um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum, og reglugerðar (ESB) 2019/2160, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2012, að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa.

Að auki er lagt til að veita lagagildi framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2021/424 frá 17. desember 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, (ESB) 575/2013, að því er varðar óhefðbundna staðalaðferð vegna markaðsáhættu.

Innleiðing Evrópugerðanna um sértryggð skuldabréf kallar ekki á verulegar breytingar á núgildandi lögum. Veigamestu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þær að útgefendur þurfa ávallt að hafa nægt laust fé í tryggingasöfnum til að standa undir hámarksútflæði lauss fjár næstu 180 daga. Þá eru sett skilyrði fyrir frestun gjalddaga sértryggðra skuldabréfa og mælt fyrir um ítarlegri upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta. Auk þess er lagt til að fleiri brot en áður varði stjórnvaldssektum og að hámark sekta verði hækkað.

Ég ætla aðeins að fara yfir samráð sem efnahags- og viðskiptanefnd hafði við vinnslu málsins. Nefndin fjallaði um málið, fékk á fundi sína gesti og bárust umsagnir, en nefndarálitið liggur frammi.

Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða voru gerðar athugasemdir við þrjú atriði frumvarpsins. Meðal þeirra var athugasemd við a-lið 4. gr., en stafliðurinn heimilar, með tilgreindum skilyrðum, að sértryggð skuldabréf séu ekki tryggð með hefðbundnu tryggingasafni heldur með sértryggðum skuldabréfum frá annarri lánastofnun í sömu samstæðu.

Nefndin óskaði jafnframt eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu varðandi málið, en þar var á það bent að hvort sem stuðst er við hefðbundna útgáfu sértryggðra skuldabréfa eða heimild a-liðar 4. gr. frumvarpsins, tryggja hefðbundnar tryggingaeignir á borð við íbúðalán að endingu greiðslur til eigenda skuldabréfanna komi til greiðsluerfiðleika útgefenda. Útgáfa á grundvelli a-liðar 4. gr. frumvarpsins geti eigi að síður haft í för með sér meiri áhættu heldur en hefðbundin útgáfa sértryggðra skuldabréfa, einkum vegna hættu á því að sú lánastofnun sem gefið hefur út sértryggðu skuldabréfin sem á að hafa í tryggingasafni standi ekki tímanlega í skilum með greiðslur af bréfunum gagnvart lánastofnuninni sem selur fjárfestum utan samstæðunnar sértryggð skuldabréf.

Umrætt ákvæði byggist á heimild 8. gr. tilskipunar þeirrar sem liggur m.a. að baki frumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar telur ekki forsendur að svo stöddu að innleiða ákvæðið. Er það m.a. af þeirri ástæðu að óljóst er um mögulega nýtingu heimildarinnar og áhrif hennar á íslenskum fjármálamarkaði. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að ákvæðið verði fellt brott úr frumvarpinu.

Það er rétt að fara yfir þær breytingar á frumvarpinu sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til en þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að a-liður 4. gr. frumvarpsins falli brott, í samræmi við það sem áður hefur komið fram hér í ræðu minni.

Þá er í öðru lagi lögð til breyting er varðar gildistöku laganna, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Þar sem ekki gafst nægur tími til að ljúka umfjöllun nefndarinnar um málið fyrir áramót er ljóst að fresta þarf gildistöku þess. Af greinargerð frumvarpsins og umsögnum sem bárust nefndinni er ljóst að nokkuð liggur á því að lögin öðlist gildi, m.a. svo að íslenskir bankar geti gefið út sértryggð skuldabréf sem talist geta veðhæf í Evrópska seðlabankanum og til þess að varna frekari innleiðingarhalla EES-gerða. Leggur meiri hlutinn því til að lögin öðlist gildi 1. mars 2023.

Aðrar þær breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki nánari umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.