153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

greiðslureikningar.

166. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um greiðslureikninga.

Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um greiðslureikninga öðlist gildi. Með lögunum verði innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014, um samanburð gjalda vegna greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að greiðslureikningum með grunneiginleika. Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um greiðsluþjónustu til að skerpa á því hvaða aðilar skuli tilgreindir og aðgreindir í skrá yfir greiðslustofnanir.

Nefndin fékk kynningu á málinu frá fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Samtökum fjármálafyrirtækja. Ein umsögn barst um málið frá Samtökum fjármálafyrirtækja auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneytið. Greint er frá því í nefndaráliti, sem liggur frammi.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja eru gerðar nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem raktar eru í nefndaráliti. Fyrstu athugasemdir samtakanna lúta að því að tryggja þurfi að flóttamenn sem eru án viðurkenndra persónuskilríkja hér á landi geti fengið greiðslureikning og benda á þann vanda sem kunni að skapast við framkvæmd laganna vegna þeirra sem teljast óstaðsettir í hús og óska eftir að stofna greiðslureikning.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis um málið kemur fram að eftir gildistöku laga nr. 62/2022 voru gerðar breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, í þá veru að 18. töluliður 3. gr. laganna hefur ekki lengur að geyma tæmandi upptalningu á þeim skilríkjum sem teljast til viðurkenndra persónuskilríkja. Lánastofnanir ættu því að hafa nægjanlegt svigrúm til að líta á skráningarskírteini umsækjanda, sem og dvalarskírteini, sem ígildi persónuskilríkja. Hvað varðar þá sem eru óstaðsettir í hús bendir ráðuneytið á að samkvæmt tilskipuninni beri ekki að túlka skilyrði hennar um lögmæta búsetu þröngt í ljósi meginreglu tilskipunarinnar um tryggt aðgengi að almennum greiðslureikningum á innri markaðnum án tillits til stöðu neytenda. Sé búseta neytanda skráð ótilgreind hjá Þjóðskrá ættu lánastofnanir að geta gengið að því vísu að viðkomandi hafi samt sem áður lögmæta búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Telur meiri hlutinn framangreindar athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja því ekki gefa tilefni til breytinga á frumvarpinu.

Þá er í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja reifuð sjónarmið um að heimildir til þess að rifta rammasamningi um almennan greiðslureikning séu ekki nægjanlegar í frumvarpinu. Heimild til að bæta viðbótartilvikum við einhliða uppsögn rammasamningsins er bundin við þau tilvik þegar neytandi misnotar rétt sinn til að stofna og nota almennan greiðslureikning. Samkvæmt tilskipuninni geta undir slík tilvik fallið m.a. afbrot á borð við alvarleg svik gagnvart lánastofnunum með það fyrir augum að koma í veg fyrir að slík afbrot endurtaki sig. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram sú afstaða að ekki verði séð að öll hegningarlagabrot geti réttlætt synjun lánastofnunar um aðgang neytanda að greiðslureikningi. Varðandi heimild til uppsagnar almenns greiðslureiknings vegna varna gegn peningaþvætti bendir ráðuneyti á að 1. tölulið 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins nær yfir þau tilvik, en samkvæmt ákvæðinu er lánastofnun heimilt að segja upp rammasamningi ef neytandi hefur notað greiðslureikning í ólögmætum tilgangi af ásettu ráði. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið ráðuneytisins.

Í gildistökuákvæði frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Sú dagsetning getur ekki staðið óbreytt. Meiri hlutinn leggur því til að lögin öðlist gildi 1. mars 2023. Meiri hlutinn telur að með því sé komið til móts við þær athugasemdir sem fram koma í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um að tryggja þurfi greiðsluþjónustuveitendum svigrúm til þess að útfæra gjaldskrár samkvæmt lögunum. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti meiri hlutans.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í nefndaráliti.

Undir nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.