Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Fyrir jól var frumvarpið rifið úr nefnd þrátt fyrir augljósa gagnrýni umsagnaraðila og aðvaranir um að 2., 4., 6., 7., 8. og 13. gr. frumvarpsins gengju á réttindi sem eru tryggð í mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá. Píratar gagnrýndu úttekt málsins harkalega og úr varð að málið yrði skoðað betur í nefnd eftir áramót. Aftur komu umsagnaraðilar og reyndu að útskýra nánar hvað væri að frumvarpinu en það hreyfði hvergi við stjórnarliðum. Það var alveg með ólíkindum. Þau vildu ekki einu sinni fá skriflegt álit óháðra aðila um hvort frumvarpið stæðist stjórnarskrá. Píratar reyndu því að útskýra fyrir þingi og þjóð um hvað frumvarpið snerist og við reyndum að fá stjórnarliða og ráðherra til að koma og útskýra fyrir okkur hvað þau héldu eiginlega að málið snerist um. En það var ekki fyrr en í fyrradag að stjórnarliðar óskuðu eftir fundi með okkur og dómsmálaráðuneytinu og þar fengum við það endanlega staðfest að þau vita nákvæmlega hvaða réttindaskerðingar þau eru að samþykkja þó að þau hafi ekki fengist til að afhjúpa skeytingarleysi sitt og segja það upphátt í þingsal. Það þurfti því ekki að útskýra málið meira fyrir stjórnarliðum og hér erum við. (Forseti hringir.) Hefði þetta geti tekið styttri tíma ef stjórnarliðar hefðu bara mætt og talað við okkur? Tvímælalaust. (Forseti hringir.) En núna vitum við að þeim er alveg sama um mannréttindi jaðarsettra hópa.