Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við getum nú loksins greitt atkvæði um þetta mál. Ég hef þá einlægu trú að þetta frumvarp sé mikil og nauðsynleg réttarbót sem þjónar fyrst og fremst því markmiði að verndarkerfið okkar geti starfað samkvæmt upprunalegum tilgangi sínum svo að Ísland geti tekið vel á móti fólki sem hingað leitar á flótta. Ég vil þakka nefndarmönnum og ritara hv. allsherjar- og menntamálanefndar fyrir vel unnin störf. Eins vil ég þakka þeim góðu sérfræðingum í ráðuneytinu sem hafa alloft mætt á fund nefndarinnar og veitt okkur góða aðstoð í málinu. Það er fjöldi sérfræðinga úti í bæ, félagasamtaka og annarra sem hafa veitt umsagnir og komið á fundi nefndarinnar og ég vil líka þakka þeim.

Þetta er í fimmta skipti sem frumvarpið er lagt fram og það hefur tekið töluverðum breytingum á þeim tíma, einmitt í ljósi þeirra umsagna sem borist hafa og þeirrar umræðu sem skapast hefur um málið. Rætt hefur verið um málið lengi og nú er kominn tími til að linni. (Forseti hringir.) Það hafa aldrei fleiri verið á flótta í heiminum og Ísland mun hér eftir sem hingað til standa undir sínum alþjóðlegu skuldbindingum.