Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni yfir því hve margir eru í þessum þingsal. Það hefði verið mjög gaman að hafa ykkur öll sem þátttakendur í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hérna á þingi, en það hefur því miður reynst vera einræða Pírata sem enginn vill hlusta á. Lögin frá árinu 2016 voru samin í þverpólitískri sátt og í raunverulegu samráði við þá aðila sem hafa t.d. gefið mjög neikvæða umsögn um þetta frumvarp. Framkvæmd þeirra laga hefur hins vegar verið slæm enda hefur hún verið gagnrýnd um árabil. Nú á að lögfesta þessa slæmu framkvæmd og út á það gengur þetta frumvarp. Þetta frumvarp snýst ekki um að bæta skilvirkni í málaflokknum. Það snýst ekki um að hjálpa betur þeim sem raunverulega þurfa. Þetta snýst ekki um að straumlínulaga kerfið eða gera neitt annað til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir við móttöku flóttafólks, enda sýnir móttaka þúsunda einstaklinga frá Úkraínu að það þarf ekki að breyta lögunum til að tryggja skilvirkni í þessum málaflokki. Þetta frumvarp snýst um að lögfesta (Forseti hringir.) ólögmæta og ómannúðlega framkvæmd Útlendingastofnunar á núgildandi lögum um útlendinga.