Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í lágkúrulegt innlegg dómsmálaráðherra hér við þessa umræðu. Það var eiginlega of aumkunarvert til að eyða miklu púðri í það. En mér þótti athyglisvert að við erum hætt að heyra Vinstri græn kyngja ælunni þegar maðurinn stígur svona fram. Það er eins og þau séu orðin svo vön því að standa vörð um mannfjandsamlega útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins að þetta sé bara orðið áreynslulaust. Við sitjum hér í salnum og heyrum ráðherra og þingmenn flokksins mæta í pontu eins og það að skerða rétt barna á flótta til sjálfstæðrar málsmeðferðar skipti engu máli, eins og þau séu bara alveg dús við það að draga úr möguleikum hinsegin kvótaflóttafólks til að sameinast mökum sínum. Réttindi barna eru réttindi allra barna, ekki bara þeirra sem eru íslensk. Réttindi hinsegin fólks eru réttindi alls hinsegin fólks, ekki bara þeirra sem eru íslensk. Hins vegar leyfir útlendingastefna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) og þar með ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur það ekki. Þau skreyta sig með því að standa með börnum og að standa með hinsegin fólki, bara ekki þeim sem eru á flótta.