Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:29]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Fólk á flótta og börn á flótta eru einn sá viðkvæmasti hópur sem er í hverju samfélagi á hverjum tíma. Hvernig fá stjórnarliðar það út að hér verði einhvers konar meiri skilvirkni ef við beinum fólki á götuna? Heimilisleysi kostar pening. Heimilisleysi gerir það að verkum að fólk er miklu líklegra til að verða fyrir hvers kyns ofbeldi og/eða mansali. Er það skilvirkni? Ætlum við að lifa í landi þar sem við ætlum að útsetja fólk fyrir ofbeldi eða mansali? Við hverju búast stjórnarliðar þegar fólki er hent út á gaddinn, að það reddist, að það fari bara?

Nei, forseti. Þetta er ekki svo auðvelt og það er alveg á hreinu. Sinnum skyldum okkar sem samfélag sem stendur vörð um réttindi allra og mannréttindi allra en ekki bara nokkurra.