Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla aftur að lýsa ánægju minni yfir þátttöku hv. stjórnarliða í þessari umræðu, ekki síst hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem var núna að segja sín fyrstu orð í þessari umræðu hér í þessum þingsal. Og hver eru þau? Hann er að verja þetta frumvarp. Verja það með því að halda því fram að ekki sé verið að eyðileggja heimild stjórnvalda til að taka til efnismeðferðar umsóknir fólks sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Það er ekki rétt. Þó að ákvæðið hafi ekki verið afnumið berum orðum er búið að hola það að innan með öðrum ógeðslegum ákvæðum í þessu frumvarpi.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kemur hér aftur og aftur og segir: Nei, það eru engin mannréttindabrot, það er rangt, og finnst það ómálefnalegt og ósanngjarnt. Telur hv. þingmaður sig vita betur en öll mannúðarsamtök sem lögðu fram umsögn um þetta frumvarp? Það er mín spurning.

Ég spyr einnig: Hv. þingmenn, stjórnarliðar, ef þið teljið þetta frumvarp vera svona ótrúlega fínt og ekkert að því hvers vegna í ósköpunum eruð þið ekki reiðubúin til að samþykkja það að fá formlegt mat á því hvort þetta standist stjórnarskrá? (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera lágmark. Það hlýtur að vera lágmark að það standist stjórnarskrána, svo ekki sé farið út í önnur atriði. — Og afsakið: Hvar er Framsóknarflokkurinn?