Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um mannréttindi. Það er eins og umræðan hérna í þingsal sé farin að snúast svolítið um vondur, verri, verstur eða góður, betri, bestur. Þetta er ekki þannig mál. Þetta frumvarp er ekki að ganga á mannréttindi fólks á flótta. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að henda fólki á flótta á götuna. (Gripið fram í.) Það er ekki það sem stendur í þessu frumvarpi. Aftur á móti … (Gripið fram í.) — Já, hv. þingmaður, ég hef lesið frumvarpið og ótrúlegt en satt, þá eru það fleiri en þingmenn Pírata sem kunna að lesa og skilja það sem stendur í frumvarpinu. (Gripið fram í.) Það er fjöldi góðra lögfræðinga sem hafa komið að þessari vinnu og ótrúlegt en satt, þá eru fleiri sem kunna lögfræði en þingmenn Pírata. Þetta frumvarp er til þess fallið að auka skilvirkni í kerfinu svo við getum tekið vel á móti því fólki sem er á flótta. (Gripið fram í: Nei.)(Gripið fram í: Alls ekki.)

(Forseti (BÁ): Þingmenn eru beðnir að virða það þegar ræðumaður er í ræðustól og láta sér nægja að tjá sig úr ræðustól en ekki úr sal.)