Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki rétt sem Rauði krossinn á Íslandi segir, kemur hér fram hjá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, loksins þegar hann skríður undan steini og mætir í salinn eftir að við höfum kallað eftir honum síðan 9. desember á síðasta ári. Þá loksins kemur í ljós að fólkið sem ríkisstjórnin vill svipta þjónustu og henda út á götuna — sveitarfélögin eigi bara að græja þetta. Þetta fengum við ekki fram inni í nefndinni, þetta fengum við ekki fram hér við umræðuna. Þetta hefur ekki legið fyrir. Þetta er það sem ráðherrann þurfti að svara í umræðunni, ekki koma hér í atkvæðaskýringu og láta eins og það sé einhver hluti af þinglegri meðferð málsins. Þessi forðun ráðherranna, þessi flótti, þessi heigulsháttur að taka ekki þátt í umræðunni, að standa ekki fyrir máli sínu, er fáránlegur. Og hvað með Framsókn, hvað með barnamálaráðherra sem ætlar að styðja frumvarp sem gengur á rétt barna á flótta með því að þeirra mál verði ekki tekin sjálfstætt fyrir? (Forseti hringir.) Það brýtur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það stendur barnamálaráðherrann fyrir, (Forseti hringir.) það stendur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fyrir. Þetta stenst ekki mannréttindi, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. (Forseti hringir.) Það hafa allir umsagnaraðilar sagt. Það hafið þið ekki leyft sjálfstæðum aðilum að meta (Forseti hringir.) vegna þess að þið þorið ekki að sjá útkomuna þar. Þið vitið hver hún verður.

(Forseti (BÁ): Enn og aftur verður forseti að minna á að ræðutími er takmarkaður þegar þingmenn hafa tækifæri til að tjá sig um atkvæðagreiðslu.)