Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það sem hefur einkennt þessa umræðu núna í þingsal er það sem einkennir þessa umræðu svo oft í samfélaginu, það er hinn háværi minni hluti. Hér hefur ekki mátt koma þingmaður úr þingliði meiri hlutans og halda sína ræðu öðruvísi en að salurinn verði eins og fuglabjarg af hálfu minni hlutans og það heyrist ekki orð af því sem menn eru að segja á meðan við hér í meiri hlutanum höfum setið hér undir óhróðri, áróðri, sem er auðvitað ekki gerður til annars en að villa um fyrir almenningi í þessu landi. Þetta er dæmigert fyrir þetta mál. Það er auðvitað ekki hægt að segja að löggjöf sem snýr að flóttamönnum í Evrópu sé ómannúðleg. Eða er það einhver tilviljun að í Evrópu er hlutfallslega í heiminum sennilega tekið mest á móti öllum flóttamönnum? Er það tilviljun? (Gripið fram í: Nei.) Nei, það er nefnilega ekki tilviljun. Og við erum hér, Íslendingar, með þessum breytingum, að feta okkur nær þeim lögum sem gilda (Forseti hringir.) í Evrópu í þeim samfélögum sem við viljum bera okkur saman við. (Forseti hringir.) Við förum reyndar ekki eins langt eins og margar aðrar þjóðir en við erum á ákveðinni vegferð (Forseti hringir.) þar sem mannúð er höfð að leiðarljósi. Og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um þessi mál, sem er einhver fallegasti sáttmáli (Forseti hringir.) sem Sameinuðu þjóðirnar hafa staðið fyrir, er hafður í heiðri og hefur slegið varðborg (Forseti hringir.) um réttindi þeirra sem raunverulega eru á flótta og raunverulega eiga að fá vernd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BÁ): Enn minnir forseti á ræðutíma, að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn virði það að í umræðum um atkvæðagreiðslu og í atkvæðaskýringum er tími afar takmarkaður.)