Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ætla að fá að umorða með mínum orðum það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var að segja hérna og það er: Stjórnvöld geta ekki haft rangt fyrir sér.

Í fyrsta lagi á ákvæðið sem ég var að hafna rétt áðan varðandi endurteknar umsóknir að svipta fólk réttinum til þess að mál sé endurupptekið vegna nýrra gagna eða breyttra forsendna. Hvers vegna er verið að afnema þann rétt? Vegna þess að það eru svo mörg mál endurupptekin, vegna þess að það eru svo mörg mál. Það eru svo margir sem biðja um endurupptöku og fá endurupptöku vegna þess að stjórnvöld komust að rangri niðurstöðu. Það er vandamálið í okkar kerfi. Það er framkvæmdin á þessu sem er í ólagi. Það á að svipta fólk réttinum til þess að fá sína ákvörðun endurskoðaða vegna þess að það eru svo margar ákvarðanir endurskoðaðar. Skýtur þetta ekki skökku við? Væri ekki réttara að taka réttar ákvarðanir og vera ekki að fleygja fólki á götuna þegar það er ekki gert?