Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Því er haldið fram að það að láta ákveðna tegund mála kærast sjálfkrafa til kærunefndar útlendinga snúist um skilvirkni. Það gerir það augljóslega ekki, sérstaklega ekki í samhengi við seinni málsl. þessa ákvæðis þar sem greinargerðarfrestur er lögbundinn, hann er lögfestur, 14 dagar. Í dag er það þannig að einstaklingar fá ákvörðun sína ekki birta með formlegum hætti eins og var. Ákvörðunin er gjarnan 15–20 bls. á íslensku, á íslensku lagamáli sem venjulegt íslenskt fólk á erfitt með að skilja, hvað þá fólk sem talar ekki íslensku. Lögmaðurinn þarf að byrja á að fara yfir ákvörðunina. Hann þarf náttúrlega að byrja á að kynna sínum umbjóðanda ákvörðunina, útskýra hana fyrir honum, skilja hana sjálfur, undirbúa kæru, undirbúa greinargerð. Það er þetta sem er verið að reyna að koma í veg fyrir vegna þess að þetta þykir vera biðtími í málinu sem skiptir ekki máli. Það að kærandi hafi tíma til að undirbúa kæruna þykir sitjandi meiri hluta hér ekki skipta máli. Það er tímasóun. Ég segi nei.