Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:55]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Þessi grein er að því er virðist til þess fallin að slá ryki í augun á fólki. Það kann við fyrstu sýn að virðast bara hið besta mál að kæra ákvörðun sjálfkrafa en ef ákvörðunin er sjálfkrafa kærð til hvers er þá verið að taka hana? Þetta hljómar eins og einhvers konar hringekja sem ætti að vera óþörf. Er þá ekki bara hægt að vera með einhverja nefnd sem tekur þetta þá beint fyrir og þá er jafnvel hægt að hafa ferlið þannig að fólk geti undirbúið þessa kæru skilmerkilega og geti gert þetta almennilega? Þarna er einfaldlega verið að leggja gildru fyrir fólk til þess að koma í veg fyrir að það geti fengið eðlilega úrlausn sinna mála. Eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir bendir á fá útlendingarnir þennan úrskurð á íslensku sem hljómar nú bara eins og einhver fáránleiki.