Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er sem sagt verið að fjalla um að það sé sjálfkrafa kæra hjá þeim málum sem falla undir 36. gr., þannig að hér er fyrst og fremst um að ræða verndarmál og Dyflinnarmál. Yfir 90% þessara mála eru í dag kærð til kærunefndarinnar þannig að með þessu er verið að auka skilvirknina og stytta það ferli. Þannig fellur niður kærufresturinn. Þess vegna er mikilvægt líka að muna það að það gilda engu að síður stjórnsýslulög og það hvílir sú skylda á stjórnvöldum að sjá til þess að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Tilgreindur greinargerðarfrestur takmarkar þannig ekki rétt kæranda til að koma að viðbótargögnum sem varða málið og taka skal tillit til á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd. Auk þess veitir kærunefnd útlendingamála viðbótarfrest til að skila greinargerð þegar þörf er á því og þess er sérstaklega óskað. Hér er því ekki verið að ganga á mannréttindi þeirra sem koma hér og óska eftir því að mál þeirra séu kærð til kærunefndar. Það er rétt, frelsið er yndislegt, enda geta viðkomandi aðilar óskað eftir því að kæran fari ekki til kærunefndar.