Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:59]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Hér er um að ræða 14 daga frest til að skila inn greinargerð. En staðreyndin er sú að Útlendingastofnun tekur sér að jafnaði tíu virka daga til að afhenda nauðsynleg gögn sem þurfa að koma fram í greinargerð aðila máls. 14 dagar eru einfaldlega ekki nægur tími og eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði hér þá birtist niðurstaðan á íslensku lagamáli. Þetta er einfaldlega ekki nægur tími. Hann styttir líka tímann sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa til að kynna sér forsendur niðurstöðu. Síðan kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir inn á það að Útlendingastofnun veitti stundum viðbótarfrest. Þannig að það er ekki verið að ganga á mannréttindi fólks en samt sem áður er þessi 14 daga frestur lögfestur frestur. Það skiptir ekki máli hvort veittur sé viðbótarfrestur í einstaka tilvikum, þetta er samt lögfest og þetta er samt íþyngjandi.