Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er verið að gera grundvallarbreytingu á aðkomu lögreglu að málefnum fólks á flótta en nú verður lögreglan ákvörðunaraðili í þeim málum en ekki bara framkvæmdaraðili eins og alltaf hefur verið. Það kom fram fyrir nefndinni að þetta var algjör stefnubreyting á þeirra störfum og gerð án samráðs við lögregluna. Lögreglan hefur ekki yfir að ráða gögnum um aðstæður og ástand fólks en lögreglan á, ef þetta verður samþykkt, eftir sem áður að taka ákvörðun um hvort fólk skuli vera undanþegið niðurfellingu á þeirri grunnþjónustu sem hér hefur verið rætt um. Þá gerir meiri hlutinn ekkert með ábendingar kærunefndar útlendingamála um að það muni leiða til aukins kostnaðar að við þetta sé komið stjórnvaldsákvörðun sem sé kæranleg verði lögregla ekki við beiðni einstaklings um þessa undanþágu.

Herra forseti. Hér er enn eitt ákvæðið sem mun auka flækjustigið, sem mun minnka skilvirkni, sem mun auka kostnað við málaflokkinn. En meiri hlutinn lokar eyrunum enn einu sinni fyrir slíku í þágu málstaðarins.