Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:26]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það sem er að gerast hérna í þessari breytingartillögu er að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar er að leggja til að ákvörðun um það hvort einstaklingur eigi að vera með þjónustu, hvort hún eigi að vera niðurfelld eða ekki, sé í höndum lögreglunnar. Ég veit ekki hvaðan þessi hugmynd kom í nefndinni. Ég var ekki á þeim fundi þegar þetta var rætt, ef þetta var rætt. En þetta er fráleit hugmynd. Líkt og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á var stungið upp á þessu án samráðs við lögregluna. Lögreglan kemur til okkar og segir: Við viljum helst ekkert vera að taka þessar ákvarðanir. Það er verið að leggja það í hendur lögreglunni að taka stjórnvaldsákvörðun án samráðs við lögregluna. Það er, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á, verið að umbylta störfum lögreglu. Lögreglan er framkvæmdaraðili og á ekkert að vera að taka einhverjar ákvarðanir. Þetta er bara fullkomlega óúthugsað eins og allt annað í þessu frumvarpi. Ég segi nei.