Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þær breytingar sem eru lagðar til hér í þessu ákvæði eru ekkert annað en hræðilegar. Það segir allt sem segja þarf um mannúðlega stefnu í útlendingamálum sem VG hefur ávallt talað fyrir. Framsóknarflokkurinn hefur í stefnu sinni að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á landsfundi að útlendingalöggjöfin þyrfti m.a. að byggja á mannúð. Að sumir flokkar leggi blessun sína yfir þann möguleika hér í þessu breytingarákvæði að íslensk stjórnvöld geti sent fólk á flótta á götuna, ekki bara í Grikklandi heldur líka hér á Íslandi — viljum við svelta fólk þjónustu til að losa okkur við það, senda fólk á flótta út í húsnæðisleysi og afnema þessi mannréttindi sem kveðið er á um í alþjóðlegum sáttmálum? Er það hluti af framtíðarsýn stjórnarflokkanna?

Herra forseti. Það er dapurleg mannúð sem stjórnarflokkarnir iðka hér með samþykkt þessara breytinga.