Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:47]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið heilmikil umræða um félagsþjónustulögin og ég vil koma því á framfæri að í gögnum nefndarinnar er minnisblað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu frá 6. desember sl. til hv. allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess að nefndin óskaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu. Það er mat ráðuneytisins að 15. gr. félagsþjónustulaganna grípi fólk sem heyrir ekki undir undanþágur ef það fer ekki úr landi. Þetta er mat ráðuneytisins. Ég hef verið að segja það hér í dag og það hlýtur að hafa komið fram í störfum nefndarinnar. Þær upplýsingar hef ég úr nefndinni að það hafi vissulega verið þannig, þar hafi líka komið fram að sveitarfélögin fái þetta endurgreitt líkt og gildir um 15. gr. laganna. Því skil ég ekki hvað er að koma fólki á óvart hér í umræðunni. Það ætti alla vega ekki að koma þeim á óvart sem sitja í nefndinni. Ég segi já.