Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég held að þetta sé torskildasta ákvæðið í þessu frumvarpi fyrir flesta. Þarna er nefnilega verið að setja inn ákvæði um svokallaðar endurteknar umsóknir. Það er rétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það er að evrópskri fyrirmynd. Hins vegar er þar verið að tala um endurteknar umsóknir, þegar fólk er búið að fá svar og sækir um aftur — er kannski búið að fara og kemur aftur og sækir um. Þetta er ekki teljandi vandamál á Íslandi. Í þessu ákvæði er verið að grauta saman við það málum þar sem fólk er með sama mál og ný gögn ef forsendur eru breyttar, tímafrestir liðnir eða annað — þá sækir það um endurupptöku sama máls. Verið er að grauta því saman til að geta vísað þeim málum frá af því að það er alltaf verið að endurupptaka þessi mál. Fólk er alltaf að fara í gegnum endurupptökuferlið til að fá rétt sinn viðurkenndan og fær það í mjög mörgum tilfellum. Með þessu ákvæði á að koma í veg fyrir það. Ég segi nei.