Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er verið að taka á þessu varðandi endurteknar umsóknir og reyna að koma í veg fyrir misnotkun þar að lútandi, þ.e. að fólk geti ekki endalaust komið inn með sömu umsóknina, endurtekna umsókn. Aftur á móti vil ég benda á að endurteknum umsóknum er almennt vísað frá nema það séu sýnilega auknar líkur á því að umsóknin fái aðra umfjöllun. Ég legg áherslu á orðalagið „sýnilega auknar líkur“, því að við tökum undir með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem gerði einmitt athugasemd við orðalagið „verulega auknar líkur“. Nú stendur í frumvarpinu „sýnilega auknar líkur“. Því held ég að við ættum öll að geta fallist á þetta ákvæði sem er jú mikilvægt til að koma í veg fyrir misnotkun, en á sama tíma er auðvitað mjög mikilvægt að hafi fólk fram að færa ný gögn eigi það þar af leiðandi rétt á því að mál þeirra sé tekið til endurskoðunar og möguleika á að fá aðra úrlausn mála sinna.