Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:01]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa breytingartillögu heils hugar. Mér finnst orðalagið í þessu ákvæði vera svolítið opið; „sanngjarnt og eðlilegt sé“. Þetta er verulega matskennt ákvæði. Svo ég vísi í orð hæstv. forsætisráðherra þá talar hún um að núverandi lög hafi verið samþykkt og samin í sátt þvert á flokka. Það er vissulega mjög rétt. En jafnvel þó að núverandi lög séu fín og góð þá er samt svigrúm til að túlka þau á mjög íþyngjandi hátt eins og við höfum séð stjórnvöld gera á síðustu árum. En ég velti því fyrir mér með tilkomu þessara lagaákvæða og ef við lögfestum þetta hvernig þessi lagaákvæði verða túlkuð. Hvernig verður þeim beitt í framkvæmd? Þetta mun hafa íþyngjandi áhrif. Og svona opið orðalag eins og „sanngjarnt og eðlilegt sé“, eitthvað sem Útlendingastofnun fær að ákveða út frá einhverri hugdettu sem þau eru með, það opnar fyrir rosalega matskenndar skoðanir. Eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir sagði þá er þetta séríslenskt kerfi og við sjáum þetta ekki framkvæmt í öðrum löndum. Ég segi já.