Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ríkisstjórnin bjó til embætti barnamálaráðherra fyrir nokkrum misserum. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé ekki alveg að fylgjast með atkvæðagreiðslunni vegna þess að mér sýnist á töflunni að hann ætli að greiða atkvæði með því að skerða réttindi barna á flótta. Ákvæðið sem við fjöllum um hér í þessari atkvæðagreiðslu snýst um það að börn verði gerð ábyrg fyrir því að foreldrar tefji mögulega málsmeðferð. Það stangast á við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það stangast á við það að barn hljóti einstaklingsbundna meðferð innan umsóknarkerfisins. Einu sinni átti Ísland barnamálaráðherra en af töflunni að dæma þá virðist hann vera að láta það embætti af höndum, því að hvað er barnamálaráðherra ef hann stendur ekki með öllum börnum? Hvað er barnamálaráðherra sem stendur ekki með börnum á flótta?