Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Jú, hér er verið að skýra séríslenskt ákvæði, við skulum líka muna það. Norðurlöndin og önnur lönd í kringum okkur eru ekki með ákvæði sem þessi. Þarna er verið að taka á því að aðallega fólk sem er með vernd í öðrum ríkjum þarf að fá afgreiðslu sinna mála innan 12 mánaða. Þessi regla er sett til að ýta undir það að íslensk stjórnsýsla vinni hratt og vel og það er gott. En það er auðvitað ekki hægt að láta það líðast að fólk misnoti þessa reglu og tefji mál sín sjálfkrafa til þess að fara inn í annað ferli og fá efnismeðferðina. (Gripið fram í.) Það er það sem er verið að koma í veg fyrir með þessari grein hér og það er bara ósköp eðlilegt, og þetta á bæði við um börn og fullorðna. (AIJ: Eru börnin að misnota kerfið?) Og aftur: (AIJ: Eru börnin að misnota kerfið?) Eru Norðurlöndin að brjóta á börnum? Eru Norðurlöndin að brjóta á börnum sem koma annars staðar frá með vernd? [Háreysti í þingsal.] Þetta er séríslensk regla (Forseti hringir.) og hér er verið að skýra frekar framkvæmd (Forseti hringir.) á henni. (AIJ: Ógeðslegt.) (Forseti hringir.) — Hv. þingmaður. Þetta er ekki boðlegt.