Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga er byggð á þeim misskilningi og ítrekuðum rangfærslum hv. þingmanna að fólk frá Venesúela fái hér vernd af efnahagslegum ástæðum, vegna efnahagsástandsins í Venesúela. Svo er ekki. Þá held ég að hv. þingmaður hefði kannski átt að heyra í kærunefndinni áður en hann fór að styðja þessa tillögu. Það er þannig að kærunefnd útlendingamála komst ekki að þeirri niðurstöðu upp á eigin spýtur. Hún gerði það vegna þess að það var verið að veita vernd. Samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins var verið að veita fólki frá Venesúela vernd. Það er ekkert sem breyttist. Þannig að kærunefnd útlendingamála sagði: Það hefur ekkert breyst. Þið getið ekki breytt stjórnvaldsframkvæmd ef það hefur ekkert breyst. Samkvæmt lögum í dag fær fólk svokallaða viðbótarvernd, líkt og fólk frá Venesúela, ef raunhæf ástæða er til að ætla að það eigi á hættu dauðarefsingu, pyndingar og aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða það verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Ég heyrði hvergi minnst á efnahagslegar ástæður. Þetta er byggt á misskilningi og rangfærslum. Ég segi nei.