Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Það er merkilegt að Barnaheill, Amnesty International, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafi misskilið þetta, það er alveg stórkostlega undarlegt, sérstaklega þegar Mannréttindaskrifstofa Íslands segir, með leyfi forseta:

„MRSÍ fær ekki séð hvaða lögmæta markmið eða ríka samfélagslega þörf búi að baki tillögu þessari. Rétturinn til fjölskyldulífs er varinn af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Ef meiri hlutinn er svona viss um að þessi samtök hafi rangt fyrir sér, af hverju var þá svona erfitt og af hverju var þá sagt nei við að fá skriflegt álit um að þetta væri rangt hjá þeim? Ég skil það ekki, þetta er rosalega einföld beiðni. Fáum það skriflegt þannig að við getum sýnt þingi og þjóð: Sjáið í alvöru, við erum ekki að brjóta á mannréttindum. Ekki bara eitthvað sem gestir segja á fundum nefndarinnar, af og á og ekki alveg nákvæmt. Og í því samhengi getum við kannski lagt fram tillögu hv. fyrrverandi alþingismanns, Helga Hrafns Gunnarssonar, um að fundir fastanefnda séu almennt opnir.