Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í þessu ákvæði er verið að bæta kvótaflóttafólki, sem sagt fólkinu sem kemur hingað sem flóttamenn í boði íslenskra stjórnvalda á vegum Sameinuðu þjóðanna, inn í þann hóp sem hægt er að svipta alþjóðlegri vernd. Við bjóðum fólki að koma hingað sem flóttamenn en við þurfum að geta haft heimild til að svipta það þeirri vernd. Þetta er enn eitt dæmið um það að þetta frumvarp snýst ekki um skilvirkni eða straumlínulögun, það snýst ekki um neitt slíkt, bara ekki neitt. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á það að þegar tekið er á móti flóttafólki, sér í lagi kvótaflóttafólki og þess háttar, þá sé það gert með það í huga að veita fólki varanlega lausn. Það er búið að gera þetta í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ísland er ekki að taka á móti það mörgum flóttamönnum í gegnum þessa leið að það sé að fara að hafa nokkur áhrif á þann fjölda sem er hérna eða leitar hingað — fyrirgefið, er boðið hingað, að setja þetta ákvæði. Þetta er bara enn eitt ákvæðið sem sýnir að tilgangur þessa frumvarps er ekki sá sem hann er sagður vera. Ég segi nei.