Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu hlynnt þessari aðgerð sem verið er að fara í með þessari breytingu. Eins og hv. þingmaður Lenya Rún Taha Karim sagði hérna áðan þá er verið að bjarga nokkrum fjölskyldum. En þarna er einfaldlega verið að þrífa upp skítinn eftir Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Það er verið að bæta upp fyrir skelfilega framkvæmd þessara laga. Þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti sem annaðhvort löggjafinn eða einhver annar grípur inn í með einhverju bráðabirgðaákvæði, einhverju skítamixi til að bjarga einhverjum nokkrum hópum í kjölfar þess að almenningur verður brjálaður yfir því hvernig farið er með flóttafólk hér á landi.

Líkt og kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þá er jafnvel um að ræða börn sem hafa dvalið hérna í mörg ár. Hvernig væri að búa þannig um löggjöfina að börn séu ekki hérna í mörg, mörg ár án dvalarleyfis og séu síðan flutt úr landi í stað þess að bjarga einhverju fyrir horn til að láta þetta frumvarp „lúkka“ betur? (Gripið fram í.) Ég veit það ekki. Ég greiði ekki atkvæði í þessu. Ég er sannarlega hlynnt þessari aðgerð en þetta er ekki rétta leiðin.