Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

umferðarlög.

589. mál
[16:38]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum. Með frumvarpinu er ætlunin að tryggja lagastoð til innleiðingar fjögurra reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins og einnar tilskipunar. Auk þess eru lagðar til breytingar sem byggja á tillögum starfshóps um smáfarartæki sem og aðrar minni breytingar.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2018/956 er mælt fyrir um kröfur er varða vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja. Eftirlitsstofnun EFTA í tilviki EFTA-ríkjanna er veitt heimild til að leggja á sektir þegar skýrslugjöf framleiðenda ökutækja er ekki í samræmi við gerðar kröfur og ekki er hægt að réttlæta frávik frá þeim með fullnægjandi hætti. Felur frumvarpið í sér lagastoð heimildarinnar. Það skal þó tekið fram að hér á landi er enginn framleiðandi ökutækja í skilningi reglugerðarinnar, alla vega ekki nú um stundir, og áhrif heimildarinnar takmarkast sökum þess. Viðmiðunargildi fyrir koltvísýringslosun nýrra þungra ökutækja er svo ákveðin samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/1242. Framleiðendum ökutækja eru samkvæmt henni veittar losunarheimildir og geta þeir hvort heldur sem er átt inneign eða staðið í skuld. Verði framleiðandi innan EFTA-ríkjanna talinn bera ábyrgð á umframlosun koltvísýrings á tilteknu skýrslutímabili frá og með árinu 2025 er Eftirlitsstofnun EFTA falið að leggja á gjald vegna hennar. Eftirlitsstofnun EFTA er samkvæmt núgildandi umferðarlögum heimilt að leggja á umframlosunargjald þegar vegið meðaltal útblásturs er yfir mörkum og er nú lögð til smávægileg orðalagsbreyting á ákvæðinu svo heimildir eftirlitsstofnunar samkvæmt reglugerðinni falli einnig skýrlega þar undir. Benda má á að líkt og vegna fyrri reglugerðar er enginn framleiðandi ökutækja í skilningi reglugerðarinnar hér á landi, í það minnsta ekki nú um stundir, og áhrif heimildir hennar gagnvart innlendum aðilum takmörkuð í ljósi þess.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2018/858 eru tilteknar breytingar gerðar á reglum um vélknúin ökutæki, eftirvagna þeirra og kerfi, íhluti og aðskildar tæknieiningar. Er aðildarríkjum samkvæmt henni skylt að tilnefna viðurkenningar- og markaðseftirlitsstjórnvald á þessu sviði. Hér á landi annast Samgöngustofa viðurkenningar ökutækja, íhluta o.fl. og er lagt til að mælt verði með skýrum hætti fyrir um það í hennar lögum, svokallaðar gerðarviðurkenningar. Þá er lagt til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falið markaðseftirlit þar sem Samgöngustofa getur ekki með góðu móti sinnt því samhliða viðurkenningarhlutverki sínu án verulegra breytinga á skipulagi stofnunarinnar. Löggjafinn hefur þegar falið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun markaðseftirlitshlutverk með lögum nr. 18/2021, um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, varðandi stjórnsýslu neytendamála. Með áðurnefndri reglugerð, 858/2018, er aðildarríkjum einnig falið að setja reglur um viðurlög við brotum markaðsaðila og gera ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og hafa varnaðaráhrif. Innan EES-svæðisins er Eftirlitsstofnun EFTA þá í ákveðnum tilvikum heimilað að leggja sektir á markaðsaðila vegna þess að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um. Til að svo megi verða þarf í umferðarlögum að heimila stofnuninni að leggja slíkar sektir á markaðsaðila. Heimildin hefur helst verið talin hafa þýðingu gagnvart framleiðendum ökutækja og viðurkenndum tækniþjónustum og sem fyrr segir er þá aðila ekki að finna hér á landi.

Með reglugerð 1054/2020 hafa breytingar verið gerðar á gildandi reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna í farþega- og farmflutningum í atvinnuskyni. Meðal þeirra breytinga er að reglurnar taka nú til ökutækja að meðtöldum eftirvögnum eða festivögnum yfir 2,5 tonn að heildarþyngd sem notaðir eru til farmflutninga þvert á landamæri eða gestaflutninga en í gildandi umferðarlögum er kveðið á um að þær taki aðeins til ökutækja yfir 3,5 tonnum að heildarþyngd. Sökum þess er lagt til að ákvæðið verði lagað að þeim breytingum sem orðið hafa. Því til viðbótar er í reglugerðinni mælt fyrir um að flutningsaðili skuli skipuleggja vinnu ökumanns svo hann komist að jafnaði aftur á bækistöð flutningsaðilans þar sem hann hefur aðsetur og þar sem vikulegur hvíldartími hans hefst. Þá er flutningsaðila gert að skrásetja hvernig hann uppfyllir þær skyldur að geyma gögn þar um á athafnasvæði sínu til framvísunar að beiðni eftirlitsyfirvalda og að bera kostnað af hvíldaraðstöðu ökumanns sem er við störf fjarri eigin heimili. Í ljósi þessa er lagt til að reglugerðarheimild ráðherra verði skýrð og við hana aukið svo að útfæra megi fyrrgreindar skyldur nánar.

Þá hafa verið gerðar breytingar á reglum um endurmenntun ökumanna sem stjórna ökutækjum til farþega- og farmflutninga í atvinnuskyni og mælt er fyrir um í tilskipun 645/ 2018. Nánar tiltekið snúa þær að kröfum um að aðeins megi kenna tiltekinn hluta endurmenntunar í fjarnámi. Þótt fengist hafi ákveðin aðlögun að þessum kröfum hér á landi þarf að kenna einhvern hluta endurmenntunar í verklegu staðnámi. Eru lagðar til breytingar á umferðarlögunum til samræmis við það.

Frú forseti. Þá hef ég lokið umfjöllun um reglugerðir og tilskipanir og sný ég mér að umfjöllun um aðrar þær breytingar sem felast í frumvarpinu. Þar ber fyrst að nefna að í júní síðastliðnum skilaði starfshópur ráðherra um smáfarartæki skýrslu sinni. Verkefni starfshópsins var að leggja fram tillögur að aðgerðum sem myndu stuðla að auknu öryggi við notkun slíkra tækja án þess þó að standa í vegi fyrir frekari þróun fjölbreyttari ferðamáta. Þau smáfarartæki sem mest hefur borið á eru rafhlaupahjól sem njóta mikilla vinsælda og hefur notkun þeirra margfaldast á skömmum tíma. Vinsældum rafhlaupahjóla fylgja áskoranir til að koma á móts við nýjan ferðamáta sem getur skilað samfélaginu ávinningi ef rétt er á haldið. Tillögur starfshópsins til úrbóta eru í sex liðum og varða fimm þeirra breytingar á umferðarlögum. Í fyrsta lagi þá lagði starfshópurinn til að nýr ökutækjaflokkur smáfarartækja yrði innleiddur í umferðarlög. Þá yrði miðað við að smáfarartæki væru ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km hraða á klukkustund og að hjól yfir þeim mörkum væru óheimil í umferð. Því miður er því farið svo að slysin hafa verið tíð og stór hluti þeirra gerist þegar um ölvunarakstur er að ræða. Því lagði starfshópurinn til í öðru lagi að sett yrði hlutlægt viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna smáfarartækja sem í fælist að refsivert yrði að stjórna smáfarartæki ef áfengismagn í blóði væri umfram 0,50‰ eða 0,25 milligrömm af vínanda í hverjum lítra útöndunarlofts. Miðað yrði við að brotum mætti ljúka með sektargreiðslu. Í þriðja lagi lagði starfshópurinn til að ökumenn smáfarartækja skyldu að lágmarki hafa náð 13 ára aldri og að yngri en 16 ára yrði gert skylt að nota hjálm. Í fjórða lagi lagði starfshópurinn til að almennt bann yrði lagt við því að breyta hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla. Í fimmta lagi lagði starfshópurinn til að leyfa ætti akstur smáfarartækja í almennri umferð á vegum þar sem hámarkshraði væri ekki meira en 30 km á klukkustund að því gefnu að gengið yrði að tillögum hópsins hvað varðar ölvunarakstur og aldursmörk, enda getur veghaldari lagt sérstakt bann við umferð smáfarartæki á einstökum vegum eða vegarköflum, þyki ástæða til þess.

Frumvarpið felur í sér allar framangreindar tillögur starfshópsins. Smáfarartæki tilheyra sem stendur flokki reiðhjóla og fer um þau sem slík. Hér er lagt til að um þau muni að mestu leyti áfram fara sem reiðhjól og um ökumenn þeirra sem hjólreiðamenn nema annað sé tekið sérstaklega fram. Er það að danskri fyrirmynd. Það er staðreynd að of mörg börn slasast á rafhlaupahjólum á Íslandi en árið 2020 voru börn um 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa. Sérstaka athygli vakti að þriðjungur þeirra barna var undir tíu ára aldri. Starfshópurinn benti á mjög ung börn ráða ekki yfir færni til aksturs vélknúinna ökutækja og fá yfirleitt ekki umferðarfræðslu í skólum. Sökum þess sé knýjandi að stjórnvöld setji almenn aldursmörk fyrir notkun smáfarartækja. Í ljósi þess að niðurstöður rannsóknar sem birt var í Læknablaðinu voru að slysatíðni yngri barna væri margfalt hærri en þeirra sem komin er á unglingsaldurinn var það mat ráðuneytisins að rétt væri að takmarka akstur smáfarartækja við 13 ára aldur. Í því sambandi má benda á að smáfarartæki er að mörgu leyti sambærileg léttum bifhjólum í flokki I og löggjafinn hefur mælt svo fyrir að enginn yngri en 13 ára megi stjórna slíku ökutæki. Um ölvun þeirra sem aka smáfarartækjum fer í dag eftir sömu reglum og gilda um hjólreiða- og hestamenn. Samkvæmt 6. mgr. 49. gr. umferðarlaga má enginn hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna að hann getur ekki stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega. Brot gegn því ákvæði eiga, líkt og öll önnur ölvunarbrot samkvæmt umferðarlögum, undir 1. mgr. 95. gr. og varða sektum eða fangelsi. Sektir fyrir brot gegn ákvæðinu eru ákveðnar í sektarreglugerð ráðherra samkvæmt 97. gr. laganna en sektarfjárhæðir ákveður ráðherra að fengnum tillögum ríkissaksóknara.

Í frumvarpinu felast ekki breytingar á þessu. Hins vegar er lagt til að í stað matskenndrar reglu 6. mgr. 49. gr. komi hlutlæg áfengismörk. Markmið þess er að auðvelda lögreglu að framfylgja þessum reglum.

Ég vil að endingu geta tveggja breytinga sem í frumvarpinu felast en leiða hvorki af Evrópugerðum né tillögum starfshóps um smáfarartæki. Annars vegar er lögð til sú breyting að ríkisaðila verði með samþykki ráðherra heimilað að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í eigin umráðum. Það er til viðbótar fyrri heimildum ríkisaðila til að sjá um innheimtu fyrir notkun stöðureita sem hann hefur umsjón með. Hins vegar er svo fyrir tilstuðlan fjármála- og efnahagsráðuneytis lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði í virðisaukaskattslögum. Með henni er lagt til að sérstakri virðisaukaskattsívilnun vegna reiðhjóla verði breytt í þeim tilgangi að viðhalda gildissviði ákvæðisins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og vísa að öðru leyti til frumvarpsins sjálfs og greinargerðar sem því fylgir. Það er mitt mat að samþykkt frumvarpsins komi til með að stuðla að auknu umferðaröryggi auk þess að stuðla að því að íslenska ríkið uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Legg ég því til að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.