Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

umferðarlög.

589. mál
[16:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að það er ekki skynsamlegt að setja boð og bönn sem er ekki hægt að framfylgja því að þá dregur eiginlega bara úr trúverðugleika annars vegar þeirra banna og þess vilja sem menn vilja ná fram. Auðvitað er lögð mikil áhersla á fræðslu og leiðbeiningar og örugglega alltaf hægt að gera betur þar.

Varðandi börnin þá er slík tillaga í starfshópnum að það þurfi að auka leiðbeiningu og fræðslu til þeirra, bæði um notkun slíkra tækja en líka auðvitað að auka umferðarfræðslu og annað. Það voru fyrst og fremst læknar sem sátu í þessum rannsakendahópi og það er þeirra mat, og kemur fram í skýrslunni sem er reyndar mjög áhugaverð lesning, að börn sem eru yngri en tíu ár hafa einfaldlega ekki þann hreyfiþroska og færni sem þarf til að stjórna vélknúnum ökutækjum. Þess vegna hefur t.d. löggjafinn miðað létt bifhjól, sem eru minnstu bifhjólin, við 13 ára aldur og er það býsna vel rökstutt og svo getum við líka borið okkur saman við Norðurlöndin sem mörg hver eru með mun hærri aldursmörk.

Ég held hins vegar að við höfum tekið þessum nýja samgöngumáta dálítið opnum örmum og svolítið stokkið af stað. Mér skilst að það séu til hjól sem eru sérstaklega ætluð börnum sem eru þá aflminni og minni í stærð sem eykur líkurnar á að börnin geti nýtt þau. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni, við þekkjum það að fjöldinn allur af börnum yngri en 13 ára er auðvitað að nota þetta til að koma sér á milli staða og auka hreyfanleika sinn en það verður að gera það líka af einhverri skynsemi. Mér finnst 45% (Forseti hringir.) allra slysa á börnum og stór hluti á börnum yngri en tíu ára, (Forseti hringir.) alvarleg slys, vera þess eðlis að það þurfi (Forseti hringir.) að ávarpa það og ræða í þinginu og ég veit að nefndin gerir það.