Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:34]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég snerti nú lauslega á því í minni ræðu áðan að það væri gömul saga og ný að það væri ákveðin hætta á ferðum þegar valdhafar hafa heimildir til að fylgjast með fólki. Ég held að við þurfum nú ekki að fara djúpt í söguna til að kalla fram að það hefur auðvitað verið raunin og ekki síst gagnvart fólki sem hefur sett spurningarmerki við ríkjandi skoðanir. Ég get t.d. nefnt fólk sem hefur barist fyrir vernd náttúrunnar. Ég get nefnt fólk sem hefur barist fyrir réttindum vinnandi fólks. Ég get nefnt stjórnmálaöfl og stjórnmálahreyfingar hér fyrr á tímum sem þurftu að sæta því að með þeim var fylgst. Það eru til margar frásagnir af þessu sem eru bæði í bókum, tímaritum og blaðagreinum sem væri fróðlegt að rifja upp á fundum nefndarinnar því að þetta er raunverulegt viðfangsefni lýðræðisins á hverjum tíma. Það hvort nákvæmlega þetta mál snýr við blaðinu hvað varðar slíkar heimildir er bara eitthvað sem mér finnst að nefndin þurfi að fjalla sérstaklega um. Mér fannst mikilvægt þegar hv. þingmaður fór í andsvar við hæstv. ráðherra um eftirlitið og innra gæðaeftirlit og það væri vel utan um það haldið. En hvort nóg sé að gert varðandi fyrirvara — já, ég tel það vera, vegna þess að bæði með ræðu hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar en líka með þeim varnaðarorðum sem hér eru uppi í umræðunni þá tel ég að það sé tímabært að mál af þessu tagi fái ítarlega þinglega meðferð.