Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

fjármögnunarviðskipti með verðbréf.

588. mál
[17:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er meira en sjálfsagt að hjálpa til við að túlka og skýra efni frumvarpsins fyrir þingnefndinni. Ég ætla bara að láta það verða mín lokaorð í þessu síðara svari við andsvari að ég held að þetta sé kannski dálítið vanmetið mál í samhengi fjármálamarkaðanna, þ.e. þetta frumvarp fjallar um mjög stórt mál sem er að hvaða marki við erum með skuldsettar fjárfestingar inn á verðbréfamarkaði hverju sinni. Á sinn hátt má segja að það séu algerar grundvallarupplýsingar fyrir hvern fjármálamarkað á hverjum tímapunkti að hafa til að geta metið það hvað er að baki hækkunum eða eftir atvikum lækkunum á mörkuðum. Þó að við höfum ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af því upp á síðkastið að fjárfestingar í skráðum íslenskum hlutabréfum væru bornar uppi af skuldsetningu, það eru þær upplýsingar sem við höfum frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans, þá getur það breyst og það getur breyst tiltölulega hratt. Eftir því sem aðgengi að fjármagni verður greiðara þá geta áhættusæknir fjárfestar farið að auka hlutdeild sína í markaðnum sem getur hreyft við stórum stærðum og það verður að tryggja með lögum, eins og við erum að reyna að gera hér, að við höfum yfirsýn yfir þá stöðu.