Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

fjármögnunarviðskipti með verðbréf.

588. mál
[17:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að þakka aftur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir góða framsögu og líka góð svör við andsvari mínu. Eins og hæstv. ráðherra benti á þá er mjög mikilvægt að við vitum og skiljum hvernig viðskipti með verðbréf eru fjármögnuð. Við sáum það í hruninu að þar voru bankar að selja hlut í sjálfum sér gegn láni frá sjálfum sér og allt gert til að hækka nokkurn veginn bara sýndarverðmæti, þetta var ekkert raunverulegt verðmæti heldur var bara verið að spila með markaðinn. Það er sérstaklega hættulegt á svona litlum mörkuðum eins og íslenski verðbréfamarkaðurinn er þar sem örlítil viðskipti geta hreyft stöðuna á markaði mjög hratt og auðveldlega. Það eina sem mér finnst svolítið athugunarefni sem við þurfum bara að reyna að læra af, er að hér er verið að innleiða reglugerð sem er í raun orðin átta ára gömul. Við erum bara með nýleg dæmi um að banki hafi verið að selja banka, selja sjálfan sig, fyrir hönd ríkissjóðs. Þess vegna er mikilvægt að vera með svona reglur þannig að það komi ekki í ljós einhvern tímann eftir á að þetta hafi allt saman verið fjármagnað af lánum, kannski bara frá bankanum sjálfum. Það er mjög áríðandi að við tökum vel á móti þessu frumvarpi í þinginu og með sem bestu móti því að gagnsæi á verðbréfamarkaði á Íslandi mun einungis aukast með samþykkt þessa frumvarps.