Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[17:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Mig langaði í seinna andsvarinu að spyrja út í tvö atriði, hið fyrra tengist því að mér sýnist á frumvarpinu og greinargerðinni að það hafi verið tekið vel tillit til ýmissa atriða sem snúa að persónuvernd og er það mjög ánægjulegt að sjá. Spurningin tengt því er hvort það sé í einhverju tilfelli starf þessa fulltrúa að aðstoða við að koma þessum málum til löggæslunnar þar sem við á, þau mál sem snúa að t.d. kynferðisleg áreitni eða ofbeldi. Það var fyrri spurningin. Seinni spurningin er tengd þessari tölfræði. Hæstv. ráðherra nefndi það að sum af þessum málum gætu verið gömul mál sem væru að koma þarna inn og þá langaði mig að spyrja hvort ekki væri við hæfi að hafa eitthvað í reglunum um að árlega sé gefin út tölfræði og henni sé miðlað á aðeins dýpri máta en þetta þannig að við sjáum hvernig þetta er brotið niður. Það kemur fram í greinargerðinni t.d. að 70% gerenda séu drengir eða karlmenn. Það væri áhugavert að fá svona tölur á miklu dýpri máta vegna þess að þá getum við nýtt þær til að byggja upp meiri forvarnir og þess háttar.