Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hafnalög.

712. mál
[17:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir góða framsögu á frumvarpinu. Eins og fram kom í framsögu hæstv. ráðherra er hér verið að heimila m.a. að gjaldskrár taki mið af umhverfissjónarmiðum og er það að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá. Nú eru þingmál til umræðu í nefnd í dag sem tengjast einmitt því að fara í orkuskipti í fiskiskipaflotanum. Eitt af því sem er mikið rætt þar er skortur á innviðum til þess að geta t.d. hlaðið báta en einnig hefur verið bent á það til að mynda varðandi skemmtiferðaskipin sem hingað koma að mörg þeirra keyra dísilvélar í höfnunum með tilheyrandi mengun vegna þess að hafnirnar hér á landi eru ekki með búnað eða nægilegt rafmagn til þess að knýja skipin í höfninni. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að gjaldskrár og annað sem verður leyft með þessu gæti opnað á það að styðja betur við uppbyggingu innviða í höfnum landsins.