Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hafnalög.

712. mál
[18:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er vonandi að við getum unnið saman í því að byggja upp þessa innviði vegna þess að það er hægt að draga mikið úr losun bara með því að gera t.d. skemmtiferðaskipunum kleift að vera tengd við rafmagn.

Í seinna andsvari langaði mig að viðra hugmynd við hæstv. ráðherra og heyra aðeins álit hans á henni. Nú kemur einmitt fram í þessu frumvarpi og greinargerðinni að verið er að veita ýmsa þjónustu við skip sem koma til hafnar eða fara frá höfninni, eins og festaþjónustu, sölu á vatni, móttöku á sorpi, rafmagnstengingar og ýmislegt fleira, m.a. er talin upp hafnsöguþjónusta og dráttarbátaþjónusta. En það er ein tegund þjónustu sem er veitt, sem betur fer mjög sjaldan en hún er þó alltaf til staðar. Það er björgunarþjónusta. Við erum með björgunarbáta rekna af sjálfboðaliðasamtökum hringinn í kringum landið og ríkið hefur verið duglegur styrktaraðili þar. En það þarf mun meira fjármagn í þetta en við fáum í dag í gegnum styrki frá ráðuneytinu og í gegnum fjárlög. Mig langaði að spyrja hvernig hæstv. ráðherra litist á að það væri t.d. tekið einhvers konar björgunarbátasjóðsgjald af þeim skipum, sérstaklega þessum stóru skipum sem koma og fara, til að aðstoða við að fjármagna uppbyggingu þessara báta hringinn í kringum landið.