Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands um frumvarp til útlendingalaga sem nú liggur fyrir þinginu var gerð athugasemd við það að í frumvarpinu kæmi fram að það gæfi ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Í frumvarpinu var hvorki vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu þrátt fyrir að efni frumvarpsins varði mannréttindi fólks með augljósum hætti. Kvað stofnunin óhjákvæmilegt að fram færi efnislegt mat á því hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða væri fullnægt. Þrátt fyrir athugasemdir Mannréttindastofnunar, ítrekaðar áskoranir og yfirlýstar kröfur okkar þingmanna Pírata um að óháðum aðila verði falið að kanna hvort ákvæði frumvarpsins standist stjórnarskrá, hefur meiri hlutinn hér á þingi þráfaldlega hafnað því. Dæmi hver fyrir sig hvers vegna það gæti verið.

Á Íslandi hefur myndast sú venja að það sé í höndum dómstóla að skera úr um stjórnskipulegt gildi laga, þ.e. hvort lög samrýmist stjórnarskrá. Helsti ókostur þessa fyrirkomulags er augljóslega sá að það er háð því hvort reyni á gildi laganna fyrir dómstólum yfirleitt. Meiri hluti samþykktra laga á Alþingi eru stjórnarfrumvörp, einna helst samin í ráðuneytunum sjálfum. Af augljósum ástæðum verður að telja það óheppilegt fyrirkomulag að sömu aðilar og semja meginþorra samþykktra lagafrumvarpa leggi einir mat á hvernig þau samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum og það bara eftir eigin hentugleika. Betur færi á því að slíkt mat færi einnig fram af hálfu óháðra aðila þegar tilefni er til. Við í þingflokki Pírata höfum því lagt fram frumvarp til laga þess efnis að sett verði á fót sérstök nefnd skipuð óháðum sérfræðingum sem hafi það hlutverk að kanna hvort formleg og efnisleg skilyrði lagafrumvarps séu í samræmi við það sem stjórnarskrá og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands áskilja. Með nefnd á borðið Lögréttu, sem gæti leyst úr slíkum álitamálum með óyggjandi hætti, yrði það mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir það að ríkisstjórn landsins setji lög í krafti meiri hluta á þingi sem stríða gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.