Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hverjir stjórna, var hæstv. forsætisráðherra tamt að segja þegar kosningabaráttan fyrir síðustu kosningar var í algleymi. Það er margt til í þeim orðum hæstv. ráðherra enda er hún ekki byrjandi í stjórnmálum eins og sá sem hér stendur. Þrátt fyrir það hef ég þó talsverða reynslu af umbreytingum og átökum og reynslan segir mér að á átaka- og krísutímum skiptir það virkilega miklu máli hverjir stjórna. Þegar mikið er undir skiptir öllu máli hvernig ákvarðanir eru teknar. Þessa dagana heyja stéttir hinna lægst launuðu harða baráttu fyrir bættum kjörum. Engan ætti að undra því það er einmitt láglaunafólk sem hefur orðið verst úti í vaxta- og verðbólguhækkunum síðustu mánaða. Verkafólk sem átti erfitt með að ná endum saman á tímum mikils hagvaxtar sér nú enga leið í gegnum verðbólguþokuna. Aðrar þjóðir hafa tæklað hækkandi verðlag með því að lækka skatta, tolla og álögur svo að verðbólgan hafi minni áhrif á almenning en hæstv. fjármálaráðherra skeytir engu um slíkt. Ráðherra er upptekinn við að stjórna landinu af sinni einstöku hagstjórnarlist sem er þó einungis skýr og aðgengileg í hugum innmúraðra Sjálfstæðismanna. Hann er upptekinn af því að leiðrétta halla ríkissjóðs, aðallega til að þóknast flokksfólki sínu, svo hann hellir olíu á verðbólgueldinn með því að hækka gjöld og álögur á fjölskyldur í landinu. Í brúnni stendur hæstv. ráðherra og tönnlast endalaust á textanum úr dægurlaginu góða: Ekki benda á mig, ekki benda á varðstjórann. Verðbólgan er Pútín og Covid að kenna. Spyrjið frekar þá sem voru á vakt.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hverjir stjórna þegar krísur ganga í gegn og það er augljóst mál að núverandi varðstjóri efnahagsmála er alls ekki starfi sínu vaxinn.